10/07/2010

Goðafoss strandar

“Öll von er úti, skipið er fullt af sjó og komið upp í fjöru”

Það var blindbylur og vonskuveður fyrir norðan land fimmtudaginn 30. nóvember árið 1916. Laugardaginn 2.desember barst sú fregn suður að Goðafoss skip Eimskipafélagsins hafi strandað kl.3 urædda nótt á Straumnesi í Aðalvík. Skipið hafði þá verið á leið frá Ísafirði og norður fyrir land. Engin loftskeytastöð var í landi til að taka við neyðarkalli frá skipinu  auk þess sem talið er að loftnet skipsins hafi rofnað og liðu því tveir og hálfur sólarhringur þar til höfuðstöðvar Eimskipafélagsins fregnuðu um afdrif skipsins. Undir eins og skipið tók niður, fylltist vélarúmið af sjó og vélar skipsins þögnuðu og við það varð almyrkvað um borð. Rafhlöður sem voru í skipinu hefðu einungis dugað til að virkja loftskeytastöðina, sem þó kom ekki að gagni. Í hálfan annan sólarhring stóð Goðafoss á grunni án þess að nokkur ótti eða hræðsla yrði á meðal þeirra sem á skipinu voru að sögn eins farþegans þó vistin væri köld og dimm. Annar sagði svo frá að hrein heppni hefði verið að ekki hefði verið um stórslys að ræða. Stórbrimið kastaði skipinu til og festi það ennfrekar í fjörunni. Farþegar voru allir í rúmum sínum þegar skipið strandaði og greip ótti og kvíði suma farþegana í fyrstu eftir strandið, en þó gekk allt vel fyrir sig. Kalt og óvistlegt var um borð og fluttu því flestir farþegar sig upp í reyksal skipsins og héldu þar til að nokkru leyti.

Þegar byrti um morgunin var stýrimaður sendur ásamt fimm hásetum í skipsbátinn og áttu þeir að halda til Aðalvíkur og sækja hjálp. Síðar um daginn gerði ofsarok og þar sem skipsbáturinn var ekki kominn til baka að kvöldi töldu menn á Goðafossi að hann hefði farist og menn allir sem á honum voru. Nokkrar áhyggjur höfðu farþegarnir af því að þá var aðeins einn björgunarbátur eftir um borð í Goðafossi, ef til þess kæmi að yfirgefa þyrfti skipið í snarheitum, en 60 menn dvöldu þá um borð í skipinu.
Á þriðja degi kom skipsbáturinn og nokkrir vélbátar frá Aðalvík á strandstaðinn og voru farþegar og áhöfn skipsins ferjaðir í land til Aðalvíkur og fengu þeir inni í skólahúsinu, en þá höfðu farþegarnir dvalið í tvo sólarhringa um borð í strönduðu skipinu við afar tvísýnar aðstæður. Skipstjórinn og aðrir yfirmenn fengu inni hjá kaupmanni staðarins. Það var þó lítið um matvæli hjá farþegunum fyrir utan dálítið af brauði og smjöri sem brytinn var svo forsjáll að hafa með sér í land, en dugði þó skamt. þá var brugðið á það ráð daginn eftir að senda skipsbátinn aftur út að Goðafossi til að sækja mat, steinolíu og kol. Sörensen vélameistari á Goðafossi tók aðsér að halda uppi gleðskap meðal farþegana, enda hafði hann tekið með sér grammifóninn og nokkrar plötur úr reyksal skipsins og þegar við bættist harmonika sem einhver átti hefur líklega sjaldan verið eins glatt á hjalla í Aðalvík.
Nóttin var köld  farþegunum sem sváfu á gólfinu í skólahúsinu, en teppi sem sótt voru í skipið komu sér því vel  og fólk bjó um sig eftir kostum.
Það var svo ekki fyrr en á laugardaginn 5.desember sem sjófært var milli Aðalvíkur og Ísajarðar og barst fregnin af strandinu því svo seint. Farþegarnir voru síðan ferjaðir til Ísafjarðar með strandferðaskipinu Flóru

Björgunarskipið Geir hélt þegar norður til Aðalvíkur þegar fregnir um strandið og ástand skipsins höfðu borist suður. Með í för var Emil Nílsen framkvæmdastjóri Eimskipafélagsins. Þegar norður var komið taldi hann ekki vonlaust að ná skipinu á flot, ef ekki breytti um veður og voru tilraunir gerðar í þá veru. Sörensen vélameistari brendist þá lítlsháttar þegar gufupípa sprakk en ekki urðu frekari slys. Daginn eftir var þó ljóst að vonlaust væri um björgun skipsins og var það dæmt strand, en eitthvað náðist að bjarga af varningi úr skipinu ásamt innanstokksmunum sem flutt var til Aðalvíkur. Kafari hafði verið fengin til að þétta botn skipsins í von um að mætti bjarga því en þær tilraunir voru með öllu árangurslausar. Geir hélt síðan til Ísafjarðar með áhöfn skipsins og skipstjóri þess sendi svohljóðandi skeyti til togarans Apríl sem aðstoða átti við björgun Goðafoss:
 “ Farið ekki. Öll von er úti. skipið er fullt af sjó og komið upp í fjöru”

Straumnes liggur austan við Aðalvík og er þar mjög sæbratt og þar ofanvið er Straumnesfjall. Á nesinu er lítill oddi sem begist til vesturs og skamt fyrir innan hann lá Goðafoss í stórgrýti. Ef farið er eftir brúninni í­ átt til hafs sést ofan á flakið af Goðafossi sem er furðu heillegt í­ fjörunni úti við Straumnestá.


Eftirmálar urðu þeir að skipstjóranum Júlúsi var kent um strandið og að andvaraleysi í skipstjórninni hafi valdið slysinu. Sumir farþegar töldu að skipstjórinn hefði sýnt mikla stillingu og hugrekki við björgun þeirra. Stýrimaðurinn var einn í brúnni en skipstjórinn dvaldi neðan þilja á þessari ögurstund og fara einhverjar sögur af athöfnum skipstjórans og nafngreindrar konu á meðan skipið bar af réttri leið.

No comments:

Post a Comment