10/07/2010

Hafrannsóknarskipið Pourqoui- Pas strandar.

Carchot-slysið.

Hafransóknarskipið Pourqoui Pas var smíðað  á árunum 1907 til 1908 í Saint-Malo í frakklandi fyrir tilstuðlan hins merka franska vísindamanns dr. Jean Charcot og nefndi hann skipið þessu nafni sem þýða mætti "Hversvegna ekki" Hann hafði sjálfur að mestu hannað skipið til þess að gegna sínu sérstæða hlutverki sem hafrannsóknarskip og til að þola siglingar um íshafið. Skipið var 825 tn. þrímastra seglskip en hafði gufuvél til hjálpar. Hann sigldi því síðan pólanna á milli í allmörg ár eða þar til Pourqoui Pas strandaði á skerinu Hnokka út frá Straumfirði á Mýrum í Borgarfjarðarsýslu miðvikudaginn 16.september 1936.


Haldið úr höfn.

Skipið hafði létt akkerum í Reykjavíkurhöfn á hádegi deginum áður og var komið vestur fyrir Garðskaga kl 6 um kvöldið þegar óveður skall á. Skipstjórinn ákvað þá að snúa skipinu við og leita vars undan veðrinu. Snemma að morgni miðvikudagsins 16.september rakst skipið á sker og kom þá strax leki að því með þeim afleiðingum að sjór fossaði niður í vélarúm skipsins og olli þar ketilsprengingu sem gerði skipið bjargarlaust. Skipverjar allir fóru nú í björgunarvesti og og fundu sér flotholt og björgunarhringa. Þeir reyndu að koma björgunarbátum skipsins fyrir borð, en sú tilraun mistókst vegna þess hve mikill sjór gekk yfir skipið og bátarnir ýmist brotnuðu eða sukku. Skipstjórinn skipaði nú svo fyrir að hver yrði að bjarga sér svo best hann gæti. Skipverjar voru nú alveg bjargarlausir á strönduðu skipinu og þrutu smám saman af úrræðum og kröftum á meðan skipið brotnaði stöðugt undan þeim og skolaði þeim einum af öðrum fyrir borð.


Eugene Gouidec lifir einn af.

Af 40 skipverjum komst aðeins einn maður af, en hann hét Eugene Gouidec þá 29 ára gamall og var þriðji stýrimaður á Pourqoui Pas. Hann hafði verið á verði fram til kl 4 um nóttina en þá lagst í koju en ekki orðið svefnsamt og hélt hann því aftur upp á stjórnpall, en þá var klukkan orðinn 5 að morgni. Skömmu síðar var hann sendur undir þiljur eftir sjókortum, en í þeim svifum sem hann kemur aftur á stjórnpall steytti skipið á skerinu. Menn reyndu nú að virkja dælur og koma upp seglum en hvorugt gekk. Skipið kastaðist nú af einu skerinu á annað og stefni þess brotnaði mjög. Gouidec ætlaði fyrst að fara um borð í stóra skipsbátinn en hann brotnaði þegar í spón. Því næst stökk hann um borð við þriðja mann í eina doríuna sem þá var komin útbyrðis en hún sökk undan þeim á skammri stund. Þá náði hann að fleyta sér um stund á litlum viðarbút sem hann komst í tæri við. Nokkru síðar bar Gouidec að landgöngubrú sem flaut frá skipinu og náði hann þar í handfestu og barst með henni nálægt landi ásamt öðrum skipsfélaga sínum sem þó örmagnaðist um síðir, en um hálfrar klukkustundar róður er frá skerinu til lands. Rekhaldið kom að landi þar sem var klettaurð og þótti mildi að hann skildi lifa þetta af, því sjálfur var hann orðinn örmagna og meðvitundarlaus þegar hann fannst.


Menn af Álftarnesi verða strandsins varir.

Þegar birti af degi um morguninn sáu menn frá bæjum í Straumfirði og Álftarnesi til hins strandaða skips, en þó óljóst því enn var svo mikið særok og öldurót að vart sást annað en siglutré skipsins, en menn töldust þó vissir um hvaða skip var hér á ferðinni. Sími var þá kominn á þessa bæi en oft á tíðum var sambandið brösótt, en þrátt fyrir það tókst að gera Slysavarnarfélaginu viðvart. Af Akranesi fór vélbáturinn Ægir til að freista þess að komast í námunda við hið strandaða skip. Á sama tíma var varðskipið Ægir útbúið til ferðar frá Reykjavíkurhöfn og danska varðskipið Hvidbjörnen sem statt var í Hvalfirði dró þegar upp akkeri og hélt á slysstað. Menn af Álftarnesi hófu þá strax að ganga fjörur en ekkert var þá enn farið að reka frá skipinu.

Varðskipin tvö komust þó ekki lengra en að Þormóðsskeri og brugðu þá tveir menn af varðskipinu Ægi á það ráð að fara í vélbátinn frá Akranesi og höfðu þeir línubyssu meðferðis og um hádegisbil náði svo vélbáturinn alveg að skipsflakinu. Þá stóð aðeins eitt af þrem siglutrjám hafrannsóknarskipsins enn uppi. Skipverjar fundu nú engan mann á lífi í flakinu og tóku þeir þá að leita uppi lík skipverja sem flutu sum í námunda við skerið. Að morgni næsta dags höfðu björgunarmenn fundið 22 lík skipverja af Pourqoui Pas. þau voru lögð hlið við hlið í túnbrekku skammt frá bænum og þar á meðal lík leiðangurstjórans dr.Jean Charcots.


Bjargvættir í Straumsfirði.

Gouidec þriðji stýrimaðurinn á Pourqoui Pas hafði komist í land skammt frá Straumfirði og voru þar tveir menn í fjörunni sem tóku á móti honum og leiddu hann heim á bæ þar sem hann fékk aðhlynningu og heitt kaffi en úr fötunum vildi hann ekki í fyrstu þó gegnblaut væru. Hann hafði að auki fengið svo mikla sjávarseltu í augun að hann var nær orðinn sjónlaus, en daginn eftir var hann þó orðinn vel ferðafær. Kristján Þórólfsson heimilismaður í Straumfirði hafði séð til landgöngubrúarinnar á reki kl.9 um morguninn skammt frá landi við svokallaða Hölluvör. Skipverjinn lá þar í sjónum hálfpart undir stiganum og hélt sér með annarri hendi en hafði hina undir hnakkanum. Þegar rekhaldið kenndi grunns sleppti maðurinn takinu og barst hann með öldu inn í víkina þar sem Kristján náði taki á hönd hans, en þarna voru klettar sleipir og skriplaði honum fótur og féll því Kristján sjálfur í sjóinn, en náði hann þó að drösla skipbrotsmanni á land með hjálp Guðjóns Sigurðssonar bónda í Straumsfirði sem kom nú aðvífandi.


Hafrannsóknir við Grænland.

Tíu dögum áður hafði Pourqoui Pas verið við rannsóknir við Grænland og orðið fyrir vélarbilun. Þá hafði varðskipið Hvídbjörnen verið fengin til þess að draga skipið til viðgerðar í Reykjavík. En talið var að um smávægilega ketilbilun væri að ræða sem tæki 2 til 3 daga að gera við, en síðar kom í ljós að viðgerð yrði umfangsmeiri en í fyrstu var talið og tafðist því skipið um nokkra daga til viðbótar á meðan menn Stálsmiðjunar í Reykjavík önnuðust viðgerðir og prófanir. Skipið lagði svo úr höfn áleiðis til Kaupmannahafnar.

Hafrannsóknarskipið Pourqoui Pas hafði snúið undan veðrinu þegar það var statt vestur undan Garðskaga eins og áður sagði og vakti það því furðu að skipið hafði borist inn á þessar slóðir og voru uppi getgátur um að skipstjórinn hafi lent í hafvillu eða hreinlega misst stjórn á skipi sínu. Líklegast er þó talið að skipstjórinn hafi ruglast á vitum og tekið Akranesvita fyrir Gróttuvita. Alls fórust 39 af 40 skipverjum hafrannsóknarskipsins 5 vísindamenn 7 yfirmenn og 28 skipverjar aðrir og þar á meðal hinn heimskunni vísindamaður dr Jean Baptiste Charcot (f.18.07.1867) en hann hafði í mörg ár farið í rannsóknarleiðangra með Pourqoui pas um Suður- og Norðurhöf.


Vísindamaðurinn  dr.Jean Charcot

Dr. Jean Charcot var íslendingum að góðu kunnur enda hafði hann haft viðdvöl hér á landi í 14 leiðöngrum með Pourqoui pas um Norðurhöf. Áður en hann hafði farið að venja komur sínar hingað hafði hann hlotið heimsfrægð fyrir rannsónir sínar í Suðurhöfum, einkum fyrir að kanna lönd sem enginn hafði áður stigið fæti á og hann komst lengra suður í Íshafðið á skipi en nokkur annar á fyrir þann tíma og var uppnefndur í vísindaheiminum "The polar gentleman" af breska skipherranum Robert Falcon Scott.

 Á meðan skip hans var til viðgerðar í Reykjavík hafði dr Carchot  verið boðið til Kaupmannahafnar af danska Landfræðifélaginu til þess að halda fyrirlestur um sín vísindastörf og rannsóknir og hugðist hann halda þangað þennan örlagaríka dag.

Af dr. Jean Charcot er það að segja að á þeirri stundu þegar skipstjórinn hafði gefið sína síðustu fyrirskipun um að hver bjargi nú sjálfum sér, þá hélt fræðimaðurinn og vísindamaðurinn dr. Charcot  af stjórnpalli til káetu sinnar til að frelsa úr prísund vin sinn máf nokkurn sem hann hafði fangað á skipinu á meðan á ransóknarleiðangri þess stóð við Grænland og geymdi þar í litlu búri. Hann hafði alið máfinn á ýmsu góðgæti og góðu frönsku víni. Hann flutti máfinn upp á þiljur svo hann gæti fleygur farið ferða sinna þó áhöfnin sjálf væri nú komin í heljar greipar.

 Lík skipverjanna 22 sem fundust voru flutt með viðhöfn til Reykjavíkur með danska varðskipinu Hvidbjörnen í fylgd flögrandi máfa og hver veit nema á meðal þeirra hafi verið máfur Charcots sem einn máfa hafði fengið að dreypa á frönsku víni.

No comments:

Post a Comment