Föstudaginn 30.maí 1941 fór Hólmsteinn í hefðbundinn róður út af Vestfjörðum. Um borð voru fjórir þaulvanir sjómenn og veður hið ákjósanlegasta til fiskveiða á miðunum vestur af Dýrafirði. Síðan spurðist ekkert til Hólmsteins né áhafnarinnar og í landi var fólk farið að óttast um hann. Bátur var þá sendur frá Þingeyri til leitar ásamt varðskipinu Óðni. Einnig leitaði flugvél (Haförninn) á stóru svæði, en ekkert fannst nema 6 bjóð. Þann 5 júní fann síðan vélbáturinn Kveldúlfur frá Hnífsdal tvo tóma lóðastampa (hálftunnur) um 28 sjómílur NV af Deild.(beint út af Dýrafirði) og talið var víst að lóðastamparnir væru frá Hólmsteini komnir.
Það vakti athygli manna að lóðastamparnir frá Hólmsteini vor með kúlnagötum, auk þess sem í þeim fannst sprengjubrot sem benti til þess að skipverjar á Hólmsteini hefðu lent í skothríð. Það var hald manna að Hólmsteinn hafi óvart lent á átakasvæði Þýskra og Breskra herskipa sem börðust nú um yfirráðin yfir Atlantshafi.
Ódæðismaðurinn Walter Kell
Hólmsteinn hafði verið við fiskveiðar út af Dýrafirði í sæmilegu veðri þegar Walter Kell foringi á kafbátnum U 204 varð var við Vb.Hólmstein. Um kl 5:15 um morguninn (31.maí) kom kafbáturinn úr kafi og réðst á fiskibátinn fyrirvaralaust með vélbyssu og sökkti honum. Stóð árásin í um klukkustund. Í árásinni fórust einnig skipverjarnir fjórir.
Hólmsteinn var fyrsta fórnarlamb Walter Kell á kafbátnum U-204. Erfitt er að glöggva sig á hvað Walter gekk til með að ráðast á svo lítilfjörlega bráð sem augljóslega hafði engan tilgang og hafði í raun ekkert með gang styrjaldarinnar að gera. Hinsvegar höfðu þjóðverjar lýst því yfir að N-Atlantshafið væri ófriðarsvæði og að öll skip og bátar sem þar færu um væru lögmæt skotmörk.
Skipverjar á Hólmsteini voru:
Ásgeir Sigurðsson formaður frá Bolungarvík, Níels Guðmundsson, Helgi Jóhannsson og Guðmundur Kristjánsson, allir frá Þingeyri.
Walter Kell var fæddur 14.desember 1913. Hann fórst með kafbátnum U-204 þann 19 oktober 1941 þegar honum var sökkt af korvettunni HMS Mallow.
Óskar Helgi Jóhannesson ekki Helgi Jóhannsson
ReplyDelete