10/07/2010

"Give my love and the crew’s love to their wives and families"

Brúin á Ross Cleveland (mynd: bbc)Breski togarinn Ross Cleveland H-61 frá Hull var einn af 20 breskum togurum sem stunduðu fiskveiðar úti af Vestfjörðum í janúar og febrúar 1968. Í áhöfn skipsins voru 19 menn, þar af 12 giftir og flestir feður. Skipið leitaði vars inn á Ísafjarðardjúpi síðla kvölds 4.febrúar 1968 eftir að fárviðri og ísingarveður (meira en 30 m/s úr norðaustri og tólf gráðu frost) hafði skollið  á þá um kvöldið. Áhöfnin barðist við að mölva ísinn af rekkverki og loftnetum, en meiri ís hlóðst á skipið en hafðist undan að brjóta af og með þeim skelfilegu afleiðingum að togarinn fórst vegna yfirísingarinnar. Þá var Ross Cleveland staddur um þrjár mílur út af Arnarnesi skömmu fyrir miðnætti og fórst með allri áhöfn utan einum manni sem bjargaðist, en það var fyrsti stýrimaðurinn Harry Eddom sem bjargaðist á gúmbát við illan leik, en gúmmíbjörgunarbátinn rak inn í Seyðisfjörð og var Harry bjargað af Guðmanni Guðmundssyni.  Loftskeytamaður af breskum togara við Íslandsstrendur heyrði síðasta kall skipstjórans af Ross Cleveland "Give my love and the crew’s love to their wives and families"
  
Annar breskur togari, Notts County GY 643, strandaði við Snæfjallaströnd í þessu sama veðri en áhöfninni var bjargað af varðskipinu Óðni sem skömmu áður hafði verið að fylgja Ísfirska fiskibátnum Heiðrúnu II frá Bolungarvík áleiðis til Ísafjarðar allt þar til varðskipið þurfti að kveðja þegar neyðarkall barst frá Notts Country. Skömmu síðar fórst Heiðrún II og með henni sex menn, þar af faðir og tveir ungir synir hans.
Heiðrún II var smíðaður hjá Þ&E á Akranesi árið 1963 og hét þá Páll Pálsson GK 360.En árið 1966 keypti Einar Guðfinnsson í Bolungarvík bátinn.
 
Það fórust 25 manns í þessu veðri á Ísafjarðardjúpi sem gjarnan er líkt við Halaveðrið 1925.
 
Frá því 13.janúar höfðu 59 breskir sjómenn frá Hull farist á Íslandsmiðum og við Noregsstrendur (Af togaranum St. Romanus) auk eins frá nágranabænum Grimsby en hann var af togaranum Notts County.
Lily Bilocca hrausleika kona sem kölluð var móðir allra togarasjómanna stóð fyrir undirskriftum og mótmælum í breska þinginu og hvatti til þess að öryggisbúnaður breskra togarasjómanna yrði stórbættur. Krafa hennar og 7000 annarra eiginkvenna togarasjómanna voru m.a. að í hverjum togara skildi vera loftskeytamaður og skipunum skylt að tilkynna sig á 12 tíma fresti.

No comments:

Post a Comment