10/07/2010

L.v.Pétursey IS 100

Íslenski fáninn sagaður út með vélbyssu.

Línuveiðarinn Pétursey frá Ísafirði (Pjetursey ÍS 100) var smíðaður í Noregi fyrir Mathias Gilsvik Askvoll árið 1923 og hét þá Solundir. Seinna var skipið selt til Íslands og gekk þá undir nafninu Poul en að síðustu var skipinu gefið nafnið Pétursey. (Skipstjóri Þorsteinn Magnússon)

Lagt á hafið í hinsta sinn.
Árið 1941 þann 12.mars var Pétursey á leið til Fleedwood á Englandi með fullfermi af fiski. Skipið hafði lagt af stað frá Ísafirði þann 8.mars, með viðkomu Í Vestmannaeyjum þar sem tekin voru kol. Þar fóru báðir vélstjórarnir frá borði og tveir aðrir fengnir í þeirra stað og voru þeir báðir úr Reykjavík. Skömmu fyrir hádegi þann 10 mars (Sama dag og Reykjaborg var skotinn í kaf)  lagði Pétursey upp í sína hinstu för. Að morgni 12 mars var Pétursey stödd um 240 sjómílur suður af Vestmannaeyjum í góðu veðri og sigldi skipið á fullri ferð, en um þetta leiti mættu þeir vélskipinu Dóru sem var að koma frá Englandi og var þá allt í stakasta lagi. En kl.18:05 þann dag réðst kafbáturinn U-37 á Pétursey djúpt suður af Íslandi (58.40N13.40W). Við árásina notaði kafbáturinn öfluga vélbyssu auk 37mm AA byssu (Loftvarnarbyssa). (Fyrstu hrinurnar misstu marks, sem hefði getað gefið áhöfn Péturseyjar tíma til að yfirgefa skipið.)

Eftir að skytturnar á U-47 höfðu hitt skipið nokkrum sinnum, þá færði kafbáturinn sig nær og vélbyssuskyttan hóf að saga út með skothríð, íslenska fánan sem sem málaður var á stafnbóg togarans. Skytturnar linntu ekki skothríðinni fyrr en togarinn sökk.

Kafbátsmenn hugðu nú að því hvort áhöfn togarans væru á reki eða á sundi einhverstaðar í grennd við hið sokkna skip, en urðu einskins varir. Enginn var til frásagnar um afdrif hinna 10 íslensku sjómanna á Pétursey.

Um þetta leiti ákváðu Íslensk stjórnvöld að banna siglingar milli Bretlands og Íslands tímabundið. Nokkru síðar lýstu þjóðverjar yfir hafnbanni á Ísland.

Asmus Nicolai Clausen var kafbátaforingi á U-37 1940-1941 en síðan á kafbátunum U-129 og U-182. Sökkti hann 23 skipum auk eins herskips á sínum ferli. Hann hlaut mörg heiðursmerki fyrir þessi ‘afrek' sín. Asmus þjónaði fyrst á Vasaorustuskipinu Admiral Graf Spee árið 1939. Hann fórst með U-182 þegar honum var sökkt 16.maí árið 1943 af Ameríska tundurspillinum USS Mackenzie á Indlandshafi. Örlög U-37 urðu þau að hann var eyðilagður við stríðslok 8 Maí, 1945 í Sonderburgflóa að skipan Dönitz.


Skipverjar á Pétursey voru eftirfarandi:
Þorsteinn Magnússon skipstjóri, Hallgrímur Pjetursson stýrimaður, Guðjón Vigfússon 1.vélstjóri, Sigurður Jónsson 2. vélstjóri, Kristján Kristjánsson kyndari, Ólafur Ó Gíslason kyndari, Theodór Jónsson matsveinn, Ólafur Kjartansson háseti, Halldór Magnússon háseti, Hrólfur Þorsteinsson háseti.

No comments:

Post a Comment