Árið 1945 undir lok seinni heimstyrjaldarinnar var Es Dettifoss eitt af fjórum skipum sem Eimskipafélagið (stofnað 1914) átti eftir af flota sínum og var Dettifoss þeirra yngst. Goðafossi hafði verið sökt í Faxaflóa 10.nóvember 1944 eftir að hafa verið forystuskip fyrir skipalestinni UR-142 og varð auðveld bráð fyrir þýska kafbátinn U-300 þar sem hann beið skammt undan Garðskaga. (Kafbáturinn hafði áður sökt olíuskipinu Shirvan og var Goðafoss að bjarga áhöfn olíuskipsins þegar kafbáturinn gerði aðra atlögu.) með Goðafossi fórust 24 Íslendingar. Hin skipin sem Eimskipafélagið átti eftir voru farþegaskipin Es Gullfoss sem var kyrsett í Kaupmannahöfn eftir að þjóðverjar hernámu Danmörk árið 1940 (síðan tekið í þjónustu Þjóðverja sem spítalaskip) og Es Brúarfoss auk fraktskipana Fjallfoss ,Lagarfoss, og Selfoss en þau tvö síðarnefndu voru orðin gömul og úrsér gengin og lítt brúkleg.
Es Dettifoss var byggt í Fredrikshavn í danmörku og var 2000 smálestir að stærð. Skipinu var hleypt af stokkunum 24.júlí 1930 og kom til landsins 10.oktober sama ár. Um borð í skipinu var svefnpláss fyrir 30 farþega á tveimur farrýmum, auk þess sem skipið gat flutt frosnar afurðir, en frystivélar voru settar í skipið árið 1939.
Fyrir stríð var Dettiofoss aðalega í förum milli Íslands og Hamborgar með viðkomu á Englandi. Þann 5.mars 1937 bjargaði skipsöfnin á Dettifossi áhöfninni af þýska togaranum Lübeek í ofsaveðri fyrir sunnan land og ávann sér frægð fyrir þá hetjudáð. Í tilefni af þessari fræknu björgun gaf Hindenburg forseti Þýskalands skipinu áletraðan koparskjöld sem hengdur var upp í forsal 1.farrýmis skipsins.
Dettifoss hafði m.a.verið í Ameríkusiglingum á stríðsárunum en sigldi einnig á breskar og írskar hafnir. Þann 21. febrúar voru örlög skipsins ráðin. Skipstjóri í þessari ferð var Jónas Böðvarsson og með honum í áhöfn skipsins voru 30 menn og 14 farþegar, þar af tæpur helmingur konur. Dettifoss var nýlagt úr höfn í Belfast í skipalestinni UR-155 á heimleið til Íslands með viðkomu í Loch Ewe þegar tundurskeyti smaug rétt fyrir aftan skip sem sigldi samsíða Dettifossi og beint inn í bakborðssíðu skipsins.
Hermanns Schneidewinds hafði nýlega verið gerður að kafbátsforingja og fékk hann til umráða kafbátinn U-1064 og var hann í sinni fyrstu áraásarferð þegar hann sökti Dettifossi, en það var líka eina skipið sem kafbáturinn náði að sökkva undir hans stjórn. Stríðinu lauk 74 dögum síðar og komst kafbáturinn í hendur Sovétríkjanna.
Samtals björguðust 30 manns en 15 fórust með skipinu þar af þrír farþegar, allt konur og 12 áhafnarmeðlimir. Skipbrotsmenn voru fluttir til Edinborgar í Skotlandi og komust ekki heim fyrr en stríðinu lauk tæpum þrem mánuðum síðar.
No comments:
Post a Comment