10/07/2010

Féllu æðrulaust fyrir látlausri skothríð.

Þó svo að Ísland væri hernumið hlutlaust land í heimstyrjöldinni síðari, (1940-1945) þá mátti þessi litla þjóð sjá á eftir 6 skipum og 80 mannslífum af völdum þýskra kafbáta á Norður Atlantshafi og var síðutogarinn Reykjaborg RE fyrsta íslenska fórnarlamb þessara sæúlfa Karls Dönits yfirmanns þýska kafbátaflotans.


Fyrsta fórnarlambið bv.Reykjaborg RE 64
Reykjaborg var 687 tonna togari smíðaður í Wimille & Cie, skipasmíðastöðinni í Boulogne í Frakklandi 1927 (hét fyrst Cap à l´Aigle). Skipið var keypt hingað til lands 24.febrúar 1936 og var þá stærsti togari íslenska flotans. Eigandi skipsins var Mjölnir hf. (Kristján Ó Skagfjörð). Það var m.a. búið vélum til framleiðslu á fiskimjöli um borð í skipinu.  Í mars árið 1941 var togarinn í fiskflutningum og hélt frá Reykjavík þann 6. áleiðis til Fleetwood á Englandi, Á togaranum var 14 manna áhöfn og einn farþegi. (Runólfur Sigurðsson skrifstofustjóri fiskimálanefndar) Þann 10 mars 1941 var Reykjaborg stödd 459 sjómílur suðvestur af Íslandi (58.24N11.25W Sjá kort af staðnum ) þegar kafbáturinn U-552 réðst á togarann og var klukkan þá á bilinu 23.14 og 23.47 (Kl. 21:25 samkv. skipsklukku Reykjaborgar). Árásina bar þannig að í myrkri og urðu skipverjar fyrst varir við að skotið var yfir togarann frá bakborða og lenda kúlurnar í sjónum öndvert við togarann en síðan upphófst stöðug skothríð á skipið ofan þilja. Skipstjóri togarans ákvað  þá að stöðva skipið.  

Bátur Rauða Djöfulsins (U-552)
U-552 var smíðaður í Hamborg 1939 ( sjósettur árið 1940) og var hinn alræmda kafbátahetja Erich Topp við stjórnvölinn. Reykjaborgin var annað skipið sem hann réðst á og sökkti í þessari árásarferð sem staðið hafði í þrjár vikur og var önnur árásarferð kafbátsins. U-552 var á heimleið þegar á vegi hans var varnarlaus íslenskur togari. Erich ákvað að sökkva honum, en þá kom upp bilun í skotbúnaði fyrir tundurskeytin og því notaði hann vélbyssu kafbátsins til að sökkva togaranum. Samtals skaut kafbáturinn 103 hrinum af dekkbyssu kafbátsins og 592 hrinum úr 2cm hlaupvíðri AA byssu.

Björgunarfleki finnst á reki.
Togarinn Vörður frá Patreksfirði fann nokkrum dögum síðar mannlausan sundurskotinn björgunarfleka af Reykjaborginni 170 sjómílur Norður af St. Kilda á Hebridaeyjum. Á flekanum fannst aðeins ullarteppi vatnskútur og eitt björgunarbelti. (Flekinn var 2m x1,5 m og á flotholtum gerðum af 6 blikktunnum).

Blóðug aftaka í náttmyrkri.
Flestir skipverjanna höfðu fallið af völdum skothríðarinnar sem að þeim var beint er þeir reyndu að leita skjóls hvar sem slíkt var að finna.Tveir menn komust af (Eyjólfur Jónsson og Sigurður Hansson) en illa sárir eftir kúlnahríðina frá U-552. Eldur hafði brotist út í sundurskotinni brú togarans og stóð skipið fljótlega í björtu báli. Skipverjar reyndu að sjósetja björgunarbát og fleka undir stanslausri kúlnahríð kafbátsins og féllu menn hver á eftir öðrum æðrulaust, svo naumast heyrðist frá þeim stuna eða hósti. Kafbáturinn sveimaði í hring um togarann en linnti þó ekki skothríðinni. Vélbyssurnar gelltu stanslaust án nokkurar miskunnar á togarann sem brátt tók að sökkva og stóð árásin yfir í hart nær klukkustund.

 Tveir menn lífs.
Næstu tvo og hálfan sólarhring hímdu tveir menn lifandi en sárir á sundurskotnum flekanum, en þriðji maðurinn sem komst í flekann var nú látinn af sárum sínum. Tvö Íslensk skip sigldu framhjá í fjarska og von um björgun virtist lítil og sjór tók að ýfast. Á fjórða degi urðu þeir varir við skipalest og var þeim félögum bjargað um borð í breskt herskip. Þeir dvöldu síðan á Bresku sjúkrahúsi í nokkrar vikur.

Hetja eða hryðjuverkamaður?
Kafbátnum U552 var sökkt í Wilhelmshaven 2.maí 1945. Erich Topp sökkti samtals 34 skipum á sínum ferli og var þriðji afkastamesti kafbátsforingi þjóðverja. Erich gekk í þýska sjóherinn 1934 og þjónaði á herskipinu Karlsruhe þar til hann gekk í þjónustu kafbátaflotans árið 1937. Ári síðar varð hann foringi á U-47 og skömmu síðar kafteinn á U- 57 sem undir hans stjórn sökkti 6 skipum. Eftir að U-57 sökk 3.september 1940 eftir árekstur við norskt skip tók hann við kafbátnum U-552 sem gekk undir nafninu –Bátur Rauða Djöfulsins-  Eftir stríðið gerðist Erich fiskimaður um nokkra mánaða skeið á meðan hann stundaði nám við arkitektúr. Árið 1958 gekk hann aftur í sjóherinn og starfaði um tíma í Bandaríkjunum á vegum NATO. Erich gaf út endurminningar sínar í bókinni Fackeln über dem Atlantik árið 2001. (Mittler & Sohn Verlag gaf út.) Um aðrar bækur má nefna The Odyssey of a U-Boat Commander. Erich fæddist 2.júlí 1914 í Hanover í Þýskalandi, hann lést 26. desember 2005.  
Í skipshöf Reykjaborgar voru þessir menn:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Ásmundur Sveinsson 1. stýrimaður, Óskar Þorsteinsson 1. vélstjóri, Daníel Oddson loftskeytamaður, Guðjón Jónsson 2.stýrimaður, Gunnlaugur Ketilsson 2. vélstjóri, Jón Lárusson matsveinn, Óskar Ingimundarson kyndari, Óskar Vigfússon kyndari, Sigurður Hansson kyndari, Þorsteinn Karlson háseti, Hávarður Jónsson háseti, Árelíus Guðmundsson háseti, Eyjólfur Jónsson háseti, Runólfur Sigurðsson farþegi.

No comments:

Post a Comment