10/07/2010

"Give my love and the crew’s love to their wives and families"

Brúin á Ross Cleveland (mynd: bbc)Breski togarinn Ross Cleveland H-61 frá Hull var einn af 20 breskum togurum sem stunduðu fiskveiðar úti af Vestfjörðum í janúar og febrúar 1968. Í áhöfn skipsins voru 19 menn, þar af 12 giftir og flestir feður. Skipið leitaði vars inn á Ísafjarðardjúpi síðla kvölds 4.febrúar 1968 eftir að fárviðri og ísingarveður (meira en 30 m/s úr norðaustri og tólf gráðu frost) hafði skollið  á þá um kvöldið. Áhöfnin barðist við að mölva ísinn af rekkverki og loftnetum, en meiri ís hlóðst á skipið en hafðist undan að brjóta af og með þeim skelfilegu afleiðingum að togarinn fórst vegna yfirísingarinnar. Þá var Ross Cleveland staddur um þrjár mílur út af Arnarnesi skömmu fyrir miðnætti og fórst með allri áhöfn utan einum manni sem bjargaðist, en það var fyrsti stýrimaðurinn Harry Eddom sem bjargaðist á gúmbát við illan leik, en gúmmíbjörgunarbátinn rak inn í Seyðisfjörð og var Harry bjargað af Guðmanni Guðmundssyni.  Loftskeytamaður af breskum togara við Íslandsstrendur heyrði síðasta kall skipstjórans af Ross Cleveland "Give my love and the crew’s love to their wives and families"
  
Annar breskur togari, Notts County GY 643, strandaði við Snæfjallaströnd í þessu sama veðri en áhöfninni var bjargað af varðskipinu Óðni sem skömmu áður hafði verið að fylgja Ísfirska fiskibátnum Heiðrúnu II frá Bolungarvík áleiðis til Ísafjarðar allt þar til varðskipið þurfti að kveðja þegar neyðarkall barst frá Notts Country. Skömmu síðar fórst Heiðrún II og með henni sex menn, þar af faðir og tveir ungir synir hans.
Heiðrún II var smíðaður hjá Þ&E á Akranesi árið 1963 og hét þá Páll Pálsson GK 360.En árið 1966 keypti Einar Guðfinnsson í Bolungarvík bátinn.
 
Það fórust 25 manns í þessu veðri á Ísafjarðardjúpi sem gjarnan er líkt við Halaveðrið 1925.
 
Frá því 13.janúar höfðu 59 breskir sjómenn frá Hull farist á Íslandsmiðum og við Noregsstrendur (Af togaranum St. Romanus) auk eins frá nágranabænum Grimsby en hann var af togaranum Notts County.
Lily Bilocca hrausleika kona sem kölluð var móðir allra togarasjómanna stóð fyrir undirskriftum og mótmælum í breska þinginu og hvatti til þess að öryggisbúnaður breskra togarasjómanna yrði stórbættur. Krafa hennar og 7000 annarra eiginkvenna togarasjómanna voru m.a. að í hverjum togara skildi vera loftskeytamaður og skipunum skylt að tilkynna sig á 12 tíma fresti.

Féllu æðrulaust fyrir látlausri skothríð.

Þó svo að Ísland væri hernumið hlutlaust land í heimstyrjöldinni síðari, (1940-1945) þá mátti þessi litla þjóð sjá á eftir 6 skipum og 80 mannslífum af völdum þýskra kafbáta á Norður Atlantshafi og var síðutogarinn Reykjaborg RE fyrsta íslenska fórnarlamb þessara sæúlfa Karls Dönits yfirmanns þýska kafbátaflotans.


Fyrsta fórnarlambið bv.Reykjaborg RE 64
Reykjaborg var 687 tonna togari smíðaður í Wimille & Cie, skipasmíðastöðinni í Boulogne í Frakklandi 1927 (hét fyrst Cap à l´Aigle). Skipið var keypt hingað til lands 24.febrúar 1936 og var þá stærsti togari íslenska flotans. Eigandi skipsins var Mjölnir hf. (Kristján Ó Skagfjörð). Það var m.a. búið vélum til framleiðslu á fiskimjöli um borð í skipinu.  Í mars árið 1941 var togarinn í fiskflutningum og hélt frá Reykjavík þann 6. áleiðis til Fleetwood á Englandi, Á togaranum var 14 manna áhöfn og einn farþegi. (Runólfur Sigurðsson skrifstofustjóri fiskimálanefndar) Þann 10 mars 1941 var Reykjaborg stödd 459 sjómílur suðvestur af Íslandi (58.24N11.25W Sjá kort af staðnum ) þegar kafbáturinn U-552 réðst á togarann og var klukkan þá á bilinu 23.14 og 23.47 (Kl. 21:25 samkv. skipsklukku Reykjaborgar). Árásina bar þannig að í myrkri og urðu skipverjar fyrst varir við að skotið var yfir togarann frá bakborða og lenda kúlurnar í sjónum öndvert við togarann en síðan upphófst stöðug skothríð á skipið ofan þilja. Skipstjóri togarans ákvað  þá að stöðva skipið.  

Bátur Rauða Djöfulsins (U-552)
U-552 var smíðaður í Hamborg 1939 ( sjósettur árið 1940) og var hinn alræmda kafbátahetja Erich Topp við stjórnvölinn. Reykjaborgin var annað skipið sem hann réðst á og sökkti í þessari árásarferð sem staðið hafði í þrjár vikur og var önnur árásarferð kafbátsins. U-552 var á heimleið þegar á vegi hans var varnarlaus íslenskur togari. Erich ákvað að sökkva honum, en þá kom upp bilun í skotbúnaði fyrir tundurskeytin og því notaði hann vélbyssu kafbátsins til að sökkva togaranum. Samtals skaut kafbáturinn 103 hrinum af dekkbyssu kafbátsins og 592 hrinum úr 2cm hlaupvíðri AA byssu.

Björgunarfleki finnst á reki.
Togarinn Vörður frá Patreksfirði fann nokkrum dögum síðar mannlausan sundurskotinn björgunarfleka af Reykjaborginni 170 sjómílur Norður af St. Kilda á Hebridaeyjum. Á flekanum fannst aðeins ullarteppi vatnskútur og eitt björgunarbelti. (Flekinn var 2m x1,5 m og á flotholtum gerðum af 6 blikktunnum).

Blóðug aftaka í náttmyrkri.
Flestir skipverjanna höfðu fallið af völdum skothríðarinnar sem að þeim var beint er þeir reyndu að leita skjóls hvar sem slíkt var að finna.Tveir menn komust af (Eyjólfur Jónsson og Sigurður Hansson) en illa sárir eftir kúlnahríðina frá U-552. Eldur hafði brotist út í sundurskotinni brú togarans og stóð skipið fljótlega í björtu báli. Skipverjar reyndu að sjósetja björgunarbát og fleka undir stanslausri kúlnahríð kafbátsins og féllu menn hver á eftir öðrum æðrulaust, svo naumast heyrðist frá þeim stuna eða hósti. Kafbáturinn sveimaði í hring um togarann en linnti þó ekki skothríðinni. Vélbyssurnar gelltu stanslaust án nokkurar miskunnar á togarann sem brátt tók að sökkva og stóð árásin yfir í hart nær klukkustund.

 Tveir menn lífs.
Næstu tvo og hálfan sólarhring hímdu tveir menn lifandi en sárir á sundurskotnum flekanum, en þriðji maðurinn sem komst í flekann var nú látinn af sárum sínum. Tvö Íslensk skip sigldu framhjá í fjarska og von um björgun virtist lítil og sjór tók að ýfast. Á fjórða degi urðu þeir varir við skipalest og var þeim félögum bjargað um borð í breskt herskip. Þeir dvöldu síðan á Bresku sjúkrahúsi í nokkrar vikur.

Hetja eða hryðjuverkamaður?
Kafbátnum U552 var sökkt í Wilhelmshaven 2.maí 1945. Erich Topp sökkti samtals 34 skipum á sínum ferli og var þriðji afkastamesti kafbátsforingi þjóðverja. Erich gekk í þýska sjóherinn 1934 og þjónaði á herskipinu Karlsruhe þar til hann gekk í þjónustu kafbátaflotans árið 1937. Ári síðar varð hann foringi á U-47 og skömmu síðar kafteinn á U- 57 sem undir hans stjórn sökkti 6 skipum. Eftir að U-57 sökk 3.september 1940 eftir árekstur við norskt skip tók hann við kafbátnum U-552 sem gekk undir nafninu –Bátur Rauða Djöfulsins-  Eftir stríðið gerðist Erich fiskimaður um nokkra mánaða skeið á meðan hann stundaði nám við arkitektúr. Árið 1958 gekk hann aftur í sjóherinn og starfaði um tíma í Bandaríkjunum á vegum NATO. Erich gaf út endurminningar sínar í bókinni Fackeln über dem Atlantik árið 2001. (Mittler & Sohn Verlag gaf út.) Um aðrar bækur má nefna The Odyssey of a U-Boat Commander. Erich fæddist 2.júlí 1914 í Hanover í Þýskalandi, hann lést 26. desember 2005.  
Í skipshöf Reykjaborgar voru þessir menn:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Ásmundur Sveinsson 1. stýrimaður, Óskar Þorsteinsson 1. vélstjóri, Daníel Oddson loftskeytamaður, Guðjón Jónsson 2.stýrimaður, Gunnlaugur Ketilsson 2. vélstjóri, Jón Lárusson matsveinn, Óskar Ingimundarson kyndari, Óskar Vigfússon kyndari, Sigurður Hansson kyndari, Þorsteinn Karlson háseti, Hávarður Jónsson háseti, Árelíus Guðmundsson háseti, Eyjólfur Jónsson háseti, Runólfur Sigurðsson farþegi.

Línuveiðarinn Fróði

Þýskur kafbátur ræðst á varnarlausa fiskimenn.

Línuveiðarinn Fróði frá Þingeyri var byggður árið 1922. Skipið kom hingað til lands 1924 og var þá í eigu  Þorsteins Eyfirðings. Í byrjun árs 1941 kom skipið úr klössun og hafði þá verið lengt töluvert.(123 smálestir brúttó en var áður 95 lestir) Línuveiðarinn Fróði var afar fengsæll og happadrjúgt skip á sinni tíð.

Fróði var staddur um 200 sjómílur suður af Vestmannaeyjum kl. 6 að morgni þann 11.mars 1941 á leið til Fleetwood á Englandi með fiskfarm þegar kafbáturinn U-74 réðst á skipið. Kafbáturinn skaut þremur skotum að skipinu og ákvað þá skipstjórinn á Fróða að láta stöðva vélarnar og skipaði áhöfninni að fara í bátanna þegar í stað. Á meðan áhöfnin var að bjástra við að sjósetja skipsbátinn hóf kafbáturinn nýja skothrinu og í millitíðinni hafði sprengikúla hæft brúna á Fróða  sem sundraðist að mestu leiti og féllu þeir menn sem þar voru staddir. Björgunarbáturinn varð fljótt sundurskotinn og einn af þeim mönnum sem staddur var á bátadekkinu fékk í sig skot og féll örendur og skömmu síðar særðist skipstjórinn á Fróða lífshættulega.

Stýrimaðurinn fallinn.
Sverrir Torfason matsveinn var vakinn skömmu fyrir kl.6 um morguninn og sagt að verið sé að gera árás á skipið og að áhöfnin væri að fara í bátana. Á meðan hann var að klæða sig kom sprengikúlan í brúna fyrir ofan hann með miklum hvelli og splundraði yfirbyggingunni. Stjórnborðsmeginn í brúnni féllu tveir hásetar, (Gísli Guðmundsson og Guðmundur Stefánsson) en í dyrunum bakborðsmeginn féll stýrimaðurinn. (Sigurður Jörundsson) Allt umturnaðist í Stýrishúsinu og ljósin slokknuðu og brúin fylltist af gufusvækju þegar ofnpípa fór í sundur. Tveir aðrir menn voru í brúnni þegar sprengikúlan sprakk, skipstjórinn og einn háseti sem komst lífs af en vankaður eftir að hafa fengið kompásinn í höfuðið.

Vélstjórinn særður.
Þegar skipstjórinn kemur út á bátadekkið kemur önnur skothrina frá kafbátnum og tætir skipsbátinn í tvennt, rétt eins og hann hefði verið sagaður sundur. Sveinbjörn 1.vélstjóri brá sér þá inn í herbergi sitt til að sækja sér jakka en fær þá skot í báða handleggi sem komu í gegnum þilfarið stjórnborðsmeginn. Skömmu síðar særðist skipstjórinn þar sem hann stóð á bátadekkinu og kallar hann á Sveinbjörn að hann sé særður. Þrátt fyrir að Sveinbjörn væri illa leikinn skrönglaðist hann upp í brú til að sækja sjúkrakassann og ber hann niður á bátadekkið svo hægt sé að huga að sárum skipstjórans.

Stefnan tekin heim.
Sverrir skýst nú upp þegar skothríðinni linnti ásamt Guðmundi háseta. Þeir bera nú helsærðan skipstjórann niður í káetu og reyna að hjúkra honum þar. Þá er kallað til þeirra að það liggi særður maður á dekkinu. það var Steinþór Árnason og var hann illa sár. Sverrir og Guðmundur báru hann einnig niður í káetuna og reyndu að gera sitt besta til að hjúkra þessum mönnum. Eftir að hafa bundið um sár mannanna hófu þeir félaga að gera ráðstafanir til að sigla skipinu heim eftir leiðbeiningum skipstjórans og var stefnan tekin Norðvestur.

Það var orðið albjart þegar hér var komið og kafbáturinn horfinn af yfirborðinu. Kyndararnir tóku til höndunum við að koma vélinni á hreyfingu. Þeir sem voru uppistandandi könnuðu skemmdirnar á skipinu hágt og lágt. Það kom í ljós að kafbáturinn hafði skotið á skipið allt um hring. Um þetta leiti er verulega dregið af Steinþóri og andast hann skömmu síðar.

Skaftfellingur kemur til hjálpar.
Daginn eftir er Fróði staddur 90 sjómílur suður af Vestmannaeyjum og verða þeir þá varir við skip og gera vart við sig með því að skjóta upp flugeldum, (Talstöð þeirra hafði eyðilagst í skotárásinni). Þetta skip var Skaftfellingur og sendi skipstjórinn á honum skeyti til lands og bað um að skip yrði sent til aðstoðar Fróða.

Aðstoðarskipið fór á mis við þá um nóttina og kl 9 næsta morgun deyr skipstjórinn af sárum sínum. þá er Fróði kominn nærri landi og klukkan 16 þennan dag leggst fróði að Bryggju í Vestmannaeyjum. Af 11 manna áhöfn lifðu 6 skipverjar.

Þeir sem létust í árásinni voru:  Gunnar Árnason skipstjóri, Sigurður V Jörundsson stýrimaður, Steinþór Árnason háseti (bróðir skipstjórans) Gísli Guðmundsson háseti og Guðmundur Stefánsson háseti.


U-74 var hleypt af stokkunum 31.ágúst 1940 í Vulkan Vegesack Werft kafbátastöðinni í Bremen. Kafbátsforingi var Eitel-Friedrich Kentrat (f.11. September 1906 í Stahlheim/Lothringen, d. 9. Janúar 1974 í Bad Schwartau) Línuveiðarinn Fróði var fyrsta skipið sem Eitel gerði atlögu að á sínum ferli. U -74 gerði atlögu að 7 skipum þar til að kafbátnum  var sökkt af breskum tundurspilli (HMS Sealion) austur af Cartagena, á Spáni 2.maí 1942, ( 37.32N  00.10A) U-74 kom nokkuð við sögu þegar eltingaleikurinn við Biskmarck stóð sem hæðst.

L.v.Pétursey IS 100

Íslenski fáninn sagaður út með vélbyssu.

Línuveiðarinn Pétursey frá Ísafirði (Pjetursey ÍS 100) var smíðaður í Noregi fyrir Mathias Gilsvik Askvoll árið 1923 og hét þá Solundir. Seinna var skipið selt til Íslands og gekk þá undir nafninu Poul en að síðustu var skipinu gefið nafnið Pétursey. (Skipstjóri Þorsteinn Magnússon)

Lagt á hafið í hinsta sinn.
Árið 1941 þann 12.mars var Pétursey á leið til Fleedwood á Englandi með fullfermi af fiski. Skipið hafði lagt af stað frá Ísafirði þann 8.mars, með viðkomu Í Vestmannaeyjum þar sem tekin voru kol. Þar fóru báðir vélstjórarnir frá borði og tveir aðrir fengnir í þeirra stað og voru þeir báðir úr Reykjavík. Skömmu fyrir hádegi þann 10 mars (Sama dag og Reykjaborg var skotinn í kaf)  lagði Pétursey upp í sína hinstu för. Að morgni 12 mars var Pétursey stödd um 240 sjómílur suður af Vestmannaeyjum í góðu veðri og sigldi skipið á fullri ferð, en um þetta leiti mættu þeir vélskipinu Dóru sem var að koma frá Englandi og var þá allt í stakasta lagi. En kl.18:05 þann dag réðst kafbáturinn U-37 á Pétursey djúpt suður af Íslandi (58.40N13.40W). Við árásina notaði kafbáturinn öfluga vélbyssu auk 37mm AA byssu (Loftvarnarbyssa). (Fyrstu hrinurnar misstu marks, sem hefði getað gefið áhöfn Péturseyjar tíma til að yfirgefa skipið.)

Eftir að skytturnar á U-47 höfðu hitt skipið nokkrum sinnum, þá færði kafbáturinn sig nær og vélbyssuskyttan hóf að saga út með skothríð, íslenska fánan sem sem málaður var á stafnbóg togarans. Skytturnar linntu ekki skothríðinni fyrr en togarinn sökk.

Kafbátsmenn hugðu nú að því hvort áhöfn togarans væru á reki eða á sundi einhverstaðar í grennd við hið sokkna skip, en urðu einskins varir. Enginn var til frásagnar um afdrif hinna 10 íslensku sjómanna á Pétursey.

Um þetta leiti ákváðu Íslensk stjórnvöld að banna siglingar milli Bretlands og Íslands tímabundið. Nokkru síðar lýstu þjóðverjar yfir hafnbanni á Ísland.

Asmus Nicolai Clausen var kafbátaforingi á U-37 1940-1941 en síðan á kafbátunum U-129 og U-182. Sökkti hann 23 skipum auk eins herskips á sínum ferli. Hann hlaut mörg heiðursmerki fyrir þessi ‘afrek' sín. Asmus þjónaði fyrst á Vasaorustuskipinu Admiral Graf Spee árið 1939. Hann fórst með U-182 þegar honum var sökkt 16.maí árið 1943 af Ameríska tundurspillinum USS Mackenzie á Indlandshafi. Örlög U-37 urðu þau að hann var eyðilagður við stríðslok 8 Maí, 1945 í Sonderburgflóa að skipan Dönitz.


Skipverjar á Pétursey voru eftirfarandi:
Þorsteinn Magnússon skipstjóri, Hallgrímur Pjetursson stýrimaður, Guðjón Vigfússon 1.vélstjóri, Sigurður Jónsson 2. vélstjóri, Kristján Kristjánsson kyndari, Ólafur Ó Gíslason kyndari, Theodór Jónsson matsveinn, Ólafur Kjartansson háseti, Halldór Magnússon háseti, Hrólfur Þorsteinsson háseti.

Manndráp á miðunum

Vélbáturinn Hólmsteinn ÍS 155 var 14 tonna eikarbátur, gerður út frá Þingeyri vorið 1941. Eigandi var Kaldbakur hf.

Föstudaginn 30.maí 1941 fór Hólmsteinn í hefðbundinn róður út af Vestfjörðum. Um borð voru fjórir þaulvanir sjómenn og veður hið ákjósanlegasta til fiskveiða á miðunum vestur af Dýrafirði. Síðan spurðist ekkert til Hólmsteins né áhafnarinnar og í landi var fólk farið að óttast um hann. Bátur var þá sendur frá Þingeyri til leitar ásamt varðskipinu Óðni. Einnig leitaði flugvél (Haförninn) á stóru svæði, en ekkert fannst nema 6 bjóð. Þann 5 júní fann síðan vélbáturinn Kveldúlfur frá Hnífsdal tvo tóma lóðastampa (hálftunnur) um 28 sjómílur NV af Deild.(beint út af Dýrafirði) og talið var víst að lóðastamparnir væru frá Hólmsteini komnir.

Það vakti athygli manna að lóðastamparnir frá Hólmsteini vor með kúlnagötum, auk þess sem í þeim fannst sprengjubrot sem benti til þess að skipverjar á Hólmsteini hefðu lent í skothríð. Það var hald manna að Hólmsteinn hafi óvart lent á átakasvæði Þýskra og Breskra herskipa sem börðust nú um yfirráðin yfir Atlantshafi.
Ódæðismaðurinn Walter Kell
Hólmsteinn hafði verið við fiskveiðar út af Dýrafirði í sæmilegu veðri þegar Walter Kell foringi á kafbátnum U 204 varð var við Vb.Hólmstein. Um kl 5:15 um morguninn (31.maí) kom kafbáturinn úr kafi og réðst á fiskibátinn fyrirvaralaust með vélbyssu og sökkti honum. Stóð árásin í um klukkustund. Í árásinni fórust einnig skipverjarnir fjórir.

Hólmsteinn var fyrsta fórnarlamb Walter Kell á kafbátnum U-204. Erfitt er að glöggva sig á hvað Walter gekk til með að ráðast á svo lítilfjörlega bráð sem augljóslega hafði engan tilgang og hafði í raun ekkert með gang styrjaldarinnar að gera. Hinsvegar höfðu þjóðverjar lýst því yfir að N-Atlantshafið væri ófriðarsvæði og að öll skip og bátar sem þar færu um væru lögmæt skotmörk.

Skipverjar á Hólmsteini voru:
Ásgeir Sigurðsson formaður frá Bolungarvík, Níels Guðmundsson, Helgi Jóhannsson og Guðmundur Kristjánsson, allir frá Þingeyri.

Walter Kell var fæddur 14.desember 1913. Hann fórst með kafbátnum U-204 þann 19 oktober 1941 þegar honum var sökkt af korvettunni  HMS Mallow.

Togarinn JÚLÍ ferst á Nýfundnalandsmiðum

Í Morgunblaðinu 12. febrúar 1959 var greint frá því að óttast var um togarann:
ÓTTAST er um afdrif togarans Júli frá Hafnarfirði, en hann var á Nýfundnalandsmiðum, er stórviðrið brast þar á sl. laugardag. Þrjátíu manna áhöfn er á skipinu, en skipstjóri er Þórður Pétursson. — Siðast spurðist til togarans Júlí sl. sunnudag, er togarinn Austfirðingur telur sig hafa heyrt til skipsins og virtist þá ekkeit að um borð. Skömmu eftir að fárviðrið skall á sást til skipsins af togaranum Júni og er það hið síðasta, sem til togarans hefur séset. Skipulögð leit var hafin að togaranum á sjó og úr loftt en sú Ieit hefur enn engan árangur borið. Fóru m. a. tvær flugvélar frá Keflavíkurflugvelli vestur yfir hafið og voru þær búnar fullkomnum ratsjártækjum til leitarinnar. Annars hefur leitinni verið stjórnað frá stöðvum á Nýfundnalandi.
Óveðrinu slotaði ekki fyrr en á mánudagskvöld. Veðurhæð hafði verið m.kil, frost 10—11 stig, og hlóðst þvi mikill ís á togarana, s.m staddir voru á þessum slóðum.

Daginn áður hafði svohljóðandi tilkynning borist frá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar:
Togararnir   Júní  og  Júlí  eign Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar fóru á veiðar á laugardagskvöld 31. jan. Skeyti barst frá togaranum Júlí, að hann hefði byrjað veiðar á svokölluðum Ritubanka á Nýfundnalandsmiðum kl. 13.00 föstudaginn 6. þessa mánaðar og frá togaranum Júní um að hann hefði byrjað veiðar kl. 4.00 aðfaranótt laugardags 7. þessa mánaðar. Á sunnudag bárust þær fréttir af veiðum togaranna að þeir hefðu hvor um sig verið búnir að fá um eða yfir 100 tonn er veiðar hefðu hætt þegar hvessti á miðunum kl. 17.00 á laugardag. Kl. 17.00 sl. mánudag barst Bæjarútgerðinni skeyti frá togaranum Júní þess efnis að hann væri á heimleið vegna veðurs og frosts. Kl. rúmlega 22,00 á mánudagskvöld barst ennþá skeyti frá Júní, þar sem skýrt var frá því að ekki væri vitað með vissu að heyrst hefði frá togaranum Júlí síðan kl. 23,30 á laugardagskvöld. Jafnframt skýrði Júní frá því að eitt skip teldi sig hafa heyrt í Júlí kl. 19,30 á sunnudagskvöld.
Eftir miðnætti aðfaranótt mánudags þegar útgerðin hafði staðið í frekari skeytasambandi við togarann Júní, og komið hafði fram að leit á sjó að togaranum Júlí að óbreyttu veðri, væri illframkvæmanleg. Snéri Bæjarútgerðin sér til Slysavarnarfélags fslands og óskaði eftir að ráðstafanir yrðu gerðar til að leit yrði hafin að skipinu með flugvélum strax og veður leyfði. Slysavarnarfélagið gerði þá strax um nóttina allar ráðstafanir til þess að leit yrði hafin. í gær fékkst staðfest að heyrst hefði til b.v. Júlí kll 7,50 á sunnudagsmorgun og kl. 19,30 á sunnudagskvöld, og var þá ekki að heyra að neitt væri að. Það upplýstist einnig að Júlí hafði farið suður frá Ritubanka og var á laugardag staðsettur á 50 gr. 27. mín N-breiddar og 50 gr. 47 mín V-lengdar, en einmitt þar voru aðrir íslenzkir togarar staddir á laugardag.

Með togaranum fórust 30 sjómenn 16-48 ára flestir frá Reykjavík —
39 börn urðu föðurlaus eftir sjóslysið.
Júlí GK var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi  árið 1947.

Hellisey VE 503 ferst við Vestmannaeyjar.

Þann 11 Mars 1984 fórst Hellisey VE 503 austur við stórhöfða á Heimaey. Fjórir ungir menn fórust með Hellisey en stýrimaðurinn Guðlaugur Friðþórsson synti 5 km og gekk 2 km yfir úfið hraun til byggða.

Ekki fréttist af slysinu fyrr en kl. 7 morguninn eftir, er stýrimaðurinn á bátnum, Guðlaugur Friðþórsson, sem þá var 22 ára, barði að dyrum á fyrsta húsinu sem hann kom að og skýrði frá því sem gerst hafði. Þá hafði hann verið á sundi í um 6 klukkustundir að því að talið er og að auki gengið berfættur yfir úfið apalhraun um tveggja km leið úr fjörunni.Skipverjar á Hellisey voru að toga um 3 mílur austur af Stórhöfða á sunnudagskvöldið þegar trollið festist í hraunkambi utan í svokallaðri Ledd. Tilraunum þeirra til að losa trollið lyktaði með því að bátnum hvolfdi mjög skyndilega án þess að hægt væri að skjóta út lífbátum eða senda út neyðarkall. Blíðskaparveður var þegar slysið varð, norðanandvari, heiðskírt og 2. stiga frost.
Björgun Guðlaugs þótti einstætt afreksverk og var talið ganga kraftaverki næst.